Skólinn tók til starfa 1952 og hét þá Gagnfræðaskólinn í Keflavík. Fyrstu árin var kennt í Barnaskólanum við Skólaveg og í Sjálfstæðishúsinu sem stóð á horni Hafnargötu og Skólavegar. Árið 1962 var lokið við byggingu nýs skólahúss við Sunnubraut 32 og það tekið í notkun 13. október 1962. Skólahúsnæðið hefur verið stækkað í þrem áföngum. Norðurálma var byggð árið 1970 og miðálma var byggð 1972. Nýjasta álma skólans var tekin í notkun 1977 og þar hafði Fjölbrautaskóli Suðurnesja aðsetur til ársins 1979 en þá flutti sá skóli í núverandi húsnæði.
Árið 1982 var skipt um nafn á Gagnfræðaskólanum í Keflavík í kjölfar nýrra grunnskólalaga. Fékk skólinn nafnið Holtaskóli. Fyrsti skólastjóri Gagnfræðaskólans var Rögnvaldur J. Sæmundsson. Var hann skólastjóri frá árinu 1952 allt til ársins 1976. Þá tók við skólastjórn Sigurður E. Þorkelsson og gegndi hann starfinu til vorsins 2003. Eftir að Sigurður lét af störfum hafa ýmis frambærilegir aðilar gegnt skólastjórastöðunni; Jónína Guðmundsdóttir, Jóhann Geirdal, Eðvarð Þór Eðvarðsson og núverandi skólastjóri er Helga Hildur Snorradóttir.
Holtaskóli er einsetinn, hverfaskiptur grunnskóli og tekur við nemendum í 1. - 10. bekk. Nemendur eru nú 420 í 20 bekkjardeildum.
Skólastjórar Gagnfræðaskólans í Keflavík - Holtaskóla |
|
1952 - 1976 |
Rögnvaldur Sæmundsson |
1976 - 2003 |
Sigurður E. Þorkelsson |
2003 - 2007 |
Jónína Guðmundsdóttir |
2007 - 2014 |
Jóhann Geirdal Gíslason |
2014 - 2018 2018 - |
Eðvarð Þór Eðvarðsson Helga Hildur Snorradóttir |