Geðlestin í heimsókn

Geðlestinn kom í heimsókn til okkar í Holtaskóla og tóku 8. og 9. bekkingar vel á móti fyrirlesurum á þeirra vegum. Markmiðið með Geðlestinni er að ræða við ungt fólk um geðheilsu og hvernig best sé að rækta hana og vernda. Lífið býður upp á allskonar áskoranir og stundum þurfum við að leita okkur aðstoðar við verkefni lífsins. Það er eðlilegasti hlutur í heimi að biðja um hjálp. Nemendur eru hvattir til þess að tjá tilfinningar sínar, spyrja spurninga og ræða við foreldra/aðstandendur eða kennara um það sem gengur á í amstri dagsins.

Öflug geðrækt frá unga aldri út lífið er besta ráðið til að takast á við þær áskoranir sem lífið færir okkur. Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og er styrkt af félags- og heilbrigðisráðuneytunum.

Hér má finna heimasíðu Geðlestarinnar.