Síðastliðin ár hefur Blue bílaleigan staðið fyrir Góðgerðarfest í október og safnað fé sem rennur til góðra málefna. Í ár söfnuðust 25 milljónir sem runnu til 17 mikilvægra málefna. Í dag voru styrkir afhentir á skrifstofu Blue og hlaut Eikin styrk upp á 1.400.000 krónur. Þeir peningar munu svo sannarlega nýtast til góðra hluta í Eikinni og færum við starfsfólki Blue kærar þakkir fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt starf, en við vitum að baki Góðgerðarfestinni liggur mikil vinna margra.
Eikin hefur áður hlotið styrk frá Blue og hefur þá verið hægt að kaupa ýmsan búnað í skynörvunarherbergi Eikarinnar s.s. nýjan lampa, ljós og hluti með mismunandi snertiáferð, keypt var nýtt trampólín, stórir og mjúkir staflanlega kubbar, tússtöfluveggfóður var sett á nokkra veggi, iPadar og iPad pennar, þurrkskáp fyrir blaut föt, skynörvunarbraut, auk ýmissa spila og námsefni sem hafa vakið mikla lukku.
Fyrir hönd nemenda og starfsfólks skólans færum við Blue okkar bestu þakkir, en velvild í garð Eikarinnar hefur verið ómetanlegur stuðningur til að bæta aðstöðu nemenda. Með þessum stuðningi er hægt að auka fjölbreytni í daglegu starfi sem stuðlar að auknum þroska, færni og ánægju nemenda Eikarinnar.
Við Sunnubraut | 230 Reykjanesbæ Sími á skrifstofu: 420-3500 Netfang: holtaskoli@holtaskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 420 3500 / holtaskoli@holtaskoli.is