Jóladagskrá 2024

Á morgun, föstudaginn 29. nóvember, er uppbrotsdagur í skólanum, en þá ætlum við að setja Holtaskóla í jólabúning enda aðventan að ganga í garð. Uppbrotsdagar eru einstaka skóladagar þar sem stundatöflu nemenda er breytt en upphaf og lok skóladags er samkvæmt hefðbundinni töflu.

Hér má finna jóladagskrána okkar, en hún er með hefðbundnu sniði. Lestrarvinir hittast, í boði verður heitt kakó og piparkökur, 5. bekkur sýnir helgileik í Hljómahöllinni og jólabíó er á sínum stað. Stofujól verða svo föstudaginn 20. desember, en sú tillaga kom frá lýðræðisráði skólans eftir að fulltrúar höfðu rætt við bekkjarfélaga sína.

Eins og fyrri ár er 10. bekkur með fjáröflun í desember fyrir vorferðalagið sitt. Snúðasala verður alla fimmtudaga í desember og er hægt að velja úr súkkulaði-, karamellu eða glassúrsnúð. Snúðurinn kostar 500 kr. og verður í boði að greiða öll skiptin í einu, samtals 1.500 kr. Tekið er við pöntunum á mánudögum og þriðjudögum og eru snúðar afhentir í nestinu á fimmtudögum. Umsjónarkennarar taka á móti peningum, en hægt er að leggja inn á reikning 10. bekkjar. Nánari upplýsingar má finna í tölvupósti til foreldra/forráðamanna.

Hátíðarmatur verður í hádeginu 12. desember og verður boðið upp á kaldan kalkún með salvíusmjöri, steiktar kartöflur, eplasalat og heita sveppasósa ásamt hefðbundnu meðlæti og ísblóm í eftirrétt. Veganréttur verður Wellington, steiktar kartöflur, eplasalat og heit sveppasósa og vegan ís. Fyrir börn sem eru í sérfæði þá fá þau íspinna í stað ísblóms. Athugið að mikilvægt er að nemendur séu skráðir í hádegismat ef þau óska eftir því að borða hátíðarmatinn en ekki verður miðasala til nemenda eins og verið hefur undanfarin ár.