Í dag fór fram lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Stapa, Hljómahöll, og kepptu þar fjórtan nemendur frá sjö grunnskólum Reykjanesbæjar. Fulltrúar Holtaskóla voru þau Eydís Sól Friðriksdóttir og Oddur Óðinn Birkisson. Varamaður var Harpa Guðrún Birgisdóttir. Elínborg Herbertsdóttir kennari sá um þjálfun þeirra fyrir lokakeppnina, en mikil undirbúningsvinna liggur að baki vel æfðum upplestri. Keppnin hefst formlega á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember og lýkur með lokakeppninni. Markmið keppninnar er fyrst og fremst að vekja athygli á vönduðum upplestri og framsögn. Verðlaunahafar frá því í fyrra kynntu skáld keppninnar sem að þessu sinni voru þau Björk Jakobsdóttir og Bragi Valdimar Skúlason. Nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fluttu tónlistaratriði í upphafi keppninnar og á milli atriða. Helgi Arnarson, sviðsstjóri Menntasviðs flutti ávarp og afhenti keppendum bók að gjöf ásamt rós. Eftir að dómarar höfðu komist að niðurstöðu voru verðlaunahafar kynntir. Þriðja sætið hlaut Eydís Sól og annað sætið hlaut Oddur Óðinn. Nemandi Njarðvíkurskóla hlaut fyrsta sætið.
Við óskum Eydísi Sól og Oddi Óðni innilega til hamingju með glæsilega frammistöðu og með sigursætin.
Hér má sjá myndir frá keppninni. (fleiri myndir birtast fimmtudaginn 7. mars)
Við Sunnubraut | 230 Reykjanesbæ Sími á skrifstofu: 420-3500 Netfang: holtaskoli@holtaskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 420 3500 / holtaskoli@holtaskoli.is