Sumarlestur

Sumarlesturinn 2020 er með sniði lestrarlandakorts og tilgangurinn þessu sinni, auk þess að hvetja til lestrar, er að kynna mismunandi tegundir bóka. Með því aukum við líkurnar á að nemendur verði áhugasamari um lestur þar sem þeir eiga auðveldara með að finna sér lesefni sem höfðar til þeirra.

Lestrarlandakortin eru í tveimur útfærslum: Ævintýralestrarlandakortið (það græna) er hugsað fyrir yngri nemendur og Lestrarlandakortið (það bláa) fyrir eldri nemendur. Kortin eru aðgengileg á Læsisvefnum og þar geta foreldrar prentað þau út. Prenta þarf kortin út í stærðinni A3 og velja raunstærð (e. actual size) og þannig er hægt að brjóta þau eins og landakort. Jafnframt hafa nokkur þúsund eintök verið prentuð og send til almenningsbókasafna svo þar má nálgast eintök. Kortin má nálgast hér með því að smella á orðin, Ævintýralandakortið og Lestrarlandakortið.

Á lestrarlandakortunum má finna nokkra vegi sem hver um sig táknar ákveðna tegund bóka og á bakhlið kortanna má finna bókalista fyrir hverja tegund. Nemendur þurfa ekki að velja bækur af þeim lista frekar en þeir vilja, heldur er listinn hugsaður sem hugmyndabanki sem hægt er að leita í. Eins er hægt að skrá þær bækur sem lesnar eru á bakhlið kortanna, taka mynd í lok sumars og senda á netfangið sumarlestur2020@mms.is. Þeir sem senda inn myndir fara í pott og eiga möguleika á að verða dregnir út á degi læsis 8. september og fá bókagjöf að launum frá Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Við hvetjum ykkur til að skoða Ævintýralestrarlandakortið eða Lestrarlandakortið með ykkar barni og hvetja það til þátttöku. Upplagt er að leggja til að sem flestar leiðir á landakortinu verði prófaðar. Þannig kynnist barnið/unglingurinn ólíkum tegundum bóka og meiri líkur verða á að áhugi á lestri glæðist!

Með von um gott lestrarsumar